Glútenlaust prótein- bananabrauð

Próteinríkt bananabrauð, glútenlaust, sykurlaust, trefjaríkt, saðsamt, bragðgott… Nafn á þetta brauð vafðist fyrir mér og ofur-bananbrauð, dúndur-bananabrauð kom til greina og bara öll stórkostlegustu lýsingarorð sem ég kann passa fyrir framan þetta brauð. En ég ákvað að hoppa á Prótein “hype-ið” til að mögulega reyna að grípa verðskuldaða athygli en líka því það lýsir brauðinu vel þar sem aðal uppistaða brauðsins eru LINSUBAUNIR! Já þú last rétt!

Eru ekki annars allir vitlausir í allt sem er próteinríkt? …. helsti plúsinn við þetta brauð er svo líka að það er trefjaríkt, glútenlaust, sturlað gott og fáránlega einfalt í þokkabót. Ég viðurkenni að ég ætlaði ekki að trúa því hvað útkoman gæti orðið góð úr þessari samsetningu.

Ég vona að þið prófið og taggið mig endilega við tilraunirnar!

Færslan er unnin í samstarfi við Rapunzel á íslandi.

Þú þarft:

  • 4 dl rauðar linsur, ég nota rauðar lífrænar frá Rapunzel (heilar)

  • 3 þroskaða banana

  • 4 ferskar döðlur, steinhreinsaðar

  • 3 msk kókosolía

  • 1 msk möndlusmjör eða annað hnetu-eða fræsmjör

  • 1 lítið lífrænt epli (án hýðis og kjarna)

  • 1 msk lyftiduft

  • 1 msk ceylon kanill

  • 2 tsk kardimommur (líka hægt að auka bara kanilmagnið)

  • 1 tsk himalayasalt

  • Valfrjálst, hægt að toppa brauðið með kókos áður en það fer inní ofninn.

Aðferð:

  1. Byjið á að skola linsur og leggja síðan í bleyti í amk 4 klst eða yfir nótt. Passið að hafa vel af vatni því linsurnar munu túttna út og við viljum að allar séu á kafi allan tímann.

  2. Komið öllum innihaldsefnum fyrir í öflugum blandara og blandið þar til áferðin er jöfn og allar linsur orðnar að mauki.

  3. Komið bökunarpappírsörk fyrir í brauðform og hellið brauðblöndunni í formið.

  4. Bakið við 180°C í 45 mínútur.

Berið gjarnan fram með t.d. kókosmöndlusmjörinu frá Rapunzel og bananasneiðum. Einnig er hægt að rista brauðið.

Verði ykkur að góðu.

Next
Next

Kasjú “sýrður rjómi”