Mjúkar kasjúostakúlur með sólþurrkuðum tómötum og chili

Kasjúostakúlur sem breyttu óspennandi grænmetisstrimlum yfir í óskasnarl hjá einum 8 ára. Henta sem “eftir-skólasnarl” en líka sem spennandi og ávanabindandi viðbót á veislubakkann. Osturinn hefur líka fengið að koma með sem nesti til útlanda og fékk að verða þykk dífa fyrir gulrótastrimla, smyrja á kexið og viðbót við salatið.

Færslan er unnin í samstarfi við Rapunzel á íslandi.

Þú þarft:

  • 1 pakki Rapunzel kasjúhnetur (250gr)

  • 4 sólþurrkaðir tómatar, ég nota frá Tovano sem eru ekki í olíu

  • 1 tsk laukduft

  • ca 2 dl vatn (alls ekki meira, en má vera minna)

  • 1 hylki góðgerlar (lactobacillus), probi mage hylkin eru hlutlaus á bragðið sem virkar vel fyrir ostagerjun

    *Sólþurrkuðu tómatarnir sem ég nota eru saltir svo ef þú notar aðra tegund sem er minna sölt gætiru viljað salta ostinn örlítið

Hjúpur:

  • 2 msk laukduft

  • 2 msk broddkúmen fræ (cumin)

  • 2 tsk chili flögur

  • 2 tsk papríkuduft, þurrkuð steinselja eða hvítlauksblanda

Þetta er bara tillaga að hjúp sem hefur verið í uppáhaldi hjá mér, chilíið poppar kúlurnar verulega upp en ég sleppi því ef ég ætla að gefa krökkunum ostinn. Cumin fræin gefa svo skemmtilegt crunch og karakter. Það getur líka verið skemmtilegt að nota rautt papríkuduft í hjúpinn fyrir sumar kúlur og þurrkaða steinselju eða annað grænt í aðrar.

Tillaga að góðum veislubakka sem nærir og kætir:

  • Vínber

  • Kex, ég er með hratkex og frækex

  • Grænmetisstrimlar eða annað fallegt grænmeti í munnbitastærð (hér er ég með gúrku og tómata)

  • Lífrænar þurrkaðar Fíkjur, ég nota frá Rapunzel…. þær eru eiginlega ómissandi, sætar fíkjur með smá spicy kasjúosti á kexi…. combó sem gerir mann húkt.

  • Aðrir þurrkaðir ávextir, hér er ég með þurrkað mangó þar sem mér fannst það gefa bakkanum skemmtilegan lit í leiðinni.

  • Það er svo auðvitað hægt að bæta við hentum, súkkulaðimolum eða sultu. Leyfið hugmyndafluginu endilega að ráða bragðlaukaferðalaginu.

Aðferð:

  1. Blandið öllu nema góðgerlum saman í blandara þar til áferðin er orðin kögglalaus og nokkuð slétt.

  2. Hellið ostablöndunni í skál og opnið góðgerlahylkið og blandið duftinu innan úr hylkinu vel með sleikju eða sleif (helst ekki nota stál áhald).

  3. Hyljið skálina með síjupoka, grisju eða eldhúspappír og leyfið að standa í 12-24 klst, því lengur því súrara bragð.

  4. Komið svo ostinum fyrir inní ísskáp og leyfið honum að kólna og stífna (amk 4 tíma).

  5. Nú er osturinn tilbúinn og þá má annaðhvort gera eina stóra kúlu eða margar litlar og velta uppúr hjúpnum og bera svo fram hvernig sem þér dettur í hug.

Verði ykkur að góðu.

Next
Next

Acaí skál með mínu uppáhalds toppings