Hratkex … fyrir alla þá sem spyrja mig að því hvað ég geri úr djúshratinu

“Hvað geriru við hratið?” er sennilega algengasta spurningin sem ég fæ þessa dagana í gegnum instagram, í það minnsta í hvert sinn sem ég sýni frá söfunum mínum. Djúsvélina hef ég notað daglega síðan í desember og það er kannski kominn tími á að ég svari þessari spurningu almennilega …. og með uppskrift.

Ég djúsa það mikið að ég næ alls ekki að nýta allt hratið. Í byrjun þegar ég var að finna taktinn í að djúsa daglega fór það mesta í ruslið en svo hófust kextilraunir og þá var ekki aftur snúið. Hér deili ég með ykkur hrákexi eða hratkexi þar sem ég nýti djúshratið úr gulrótum. Kexið er frábært með hverskonar smuráleggi og getur einnig borðast sem snakk. Í takt við lifandi lífstíl fannst mér viðeigandi að bera það hér fram með guacamole og toppa með “lifandi” spírum!

Það má segja að spírur séu hið fullkomna skraut, skraut með alvöru tilgang! Skrautið sem má borða, skrautið sem nærir þig og gefur skemmtilegt bragð. Radísu- og blaðlauksspírur eru mínar uppáhaldsspírur þegar ég vil smá “kick” fyrir bragðlaukana. Mæli með að smakka mismunandi spírur og bera saman brögð, hver veit nema þú uppgötvar þínar “uppáhalds” spírur.

Færslan er unnin í samstarfi við ecospíru.

Þú þarft:

Hratkexið:

  • 3 dl hörfæ

  • 4 dl vatn

  • 5 dl gulrótarhrat

  • 2 tsk dill

  • 2 tsk laukduft

  • 1 tsk eðalkrydd

  • 1 tsk jurtasalt

  • 1 msk næringarger

“Lifandi” guacamole:

  • 1 stór avocado

  • 2-3 msk sítrónukálið ljúfa (súrkál frá súrkál fyrir sælkerum)

  • 1 hvítlauksrif

  • Vænn hnífsoddur jurtasalt

Toppings:

  • Guacamole, hummus eða þínu uppáhalds smuráleggi.

  • Radísuspírur frá ecospíru

  • Blaðlauksspírur frá ecospíru

Hægt er að kaupa spírurnar tilbúnar eða spíra sjálfur en ecospíra selur einnig fræin til spírunar.

Aðferð:

  1. Byrjum á að leggja hörfræ í bleyti (3 dl hörfræ á móti 4 dl af vatni) í ca 8 klst.

  2. Bætið svo gulrótarhrati, kryddum og salti útí og hrærið vel.

  3. Dreifið þunnu lagi af kexblöndunni á tvær arkir af bökunarpappír eða silikonmottu með spaða. Reynið að ná frekar þéttu lagi. Skerið rákir í sléttu kexblönduna með t.d. pizza skera til að móta stærð kexins.

  4. Bakið í þurrkofni (42°), eða bakaraofni á lægstu stillingu (50°) með sleif eða viskustykki sem myndar rifu milli ofnhurðarinnar, og bakið í 8-10 klst. Einnig ætti að vera hægt að baka kexið eins og venjulegt kex á 180 í ca 20 mín eða þar til þurrt (hef þó ekki prófað það sjálf) en þá heitir það ekki lengur hrákex og verður bara hratkex en alveg jafn bragðgott.

  5. Berið kexið fram með þínu uppáhalds smuráleggi og toppið með spírum.

Ég set linka á nokkrar uppskriftir hér til hliðar (eða hér að neðan ef þið eruð að lesa þetta í símanum) sem gæti passað vel með kexinu.

Verði ykkur að góðu.

Previous
Previous

Lifandi guacamole

Next
Next

Heslihnetukubbar