Heimagert falafel

Falafel er eitthvað sem flestir þekkja og hafa smakkað. Falafel eru bollur úr kjúklingabaunum sem eru einar af mínum uppáhaldsbaunum. Fyrir einhverjum mánuðum fór ég að leita leiða til að spara í mat og það að elda úr baunum er sennilega besta sparnaðartipsið sem ég get gefið ykkur þegar það kemur að því að eyða minna í mat án þess að það komi niður á gæði næringar.

Ég fór að leggja kjúklingabaunir í bleyti og óvart varð til vikuleg rútína sem sparaði okkur matarkostnað, einfaldaði lífið og á sama tíma skapaði tilhlökkun hjá bragðlaukunum.

Ég legg 500gr af þurrum kjúklingabaunum í bleyti og nota hluta af þeim til að búa til falafel, restina síð ég og nota þá hluta fyrir hummus og svo verður yfirleitt afgangur en það er breytilegt hvað verður úr þeim. Stundum geymi ég afgangsbaunirnar til að steikja á pönnu og toppa salat eða súpur með, stundum geri ég kjúklingabaunasalat sem er vinsælt í nestissamlokur í skólann, en þær hafa líka ratað í orkukúlur sem var alls ekki vitlaus hugmynd. Við hreinlega elskum kjúklingabaunir og möguleikana sem þær bjóða uppá.

Uppskriftin geriri ráð fyrir að þið eigið matvinnsluvél.

Færslan er unnin í samstarfi við Rapunzel á íslandi.

Þú þarft:

Ath að leggja þarf baunirnar í bleyti í 8 klst áður en falafelið er útbúið.

  • 4 dl blautlagðar lífrænar kjúklingabaunir frá Rapunzel (ekki soðnar, mælt eftir að þær hafa legið í bleyti, giska á að það séu ca 3 dl af þurrum baunum)

  • 120-130 gr gulur laukur (ca 2stk litlir lífrænir eða 1 stór)

  • 1 geiralaus hvítlaukur eða ca 4-5 hvítlauksgeirar

  • 40 gr fersk steinselja (2 box frá Vaxa)

  • 5 msk kjúklingabaunamjöl

  • 2,5 tsk broddkúmen (cumin)

  • 1 ½ - 2 tsk jurtasalt (herbamare, minna ef þú notar venjulegt salt)

  • 1 tsk papríkuduft

  • ½ tsk harissa kryddblanda

  • 1 tsk lyftiduft

  • ½ tsk matarsódi

Tips. Ekki vera hrædd við að leika ykkur með kryddin. Það getur verið ágætt að hafa kryddmagnið til viðmiðunar til að þær verði ekki bragðlausar en ég hef líka notað kryddblöndu sem heitir miðausturlönd þegar ég átti ekki broddkúmen og svo hef ég líka leikið mér með t.d. Za'atar krydd sem kom líka skemmtilega út.

Aðferð:

  1. Byrjað er á að leggja þurrar ósoðnar kjúklingabaunir í bleyti í ca 8 tíma. Tilvalið að leggja þær í bleyti um morguninn til að gera svo ferskar falafelbollur í kvöldmatinn.

  2. Setjið gróft skotinn lauk og hvítlauk í matvinnsluvél og malið niður þar til orðið smátt.

  3. Bætið blautlögðum kjúklingabaunum (hellið vatninu af) og steinselju í matvinnsluvélina og mixið aftur þar til smátt.

  4. Bætið nú við kryddum, kjúklingabaunamjöli, lyftidufti og matarsóda og maukið saman í dágóða stund í matvinnsluvélinni. Það getur þurft að stöðva vélina af og til og skafa meðfram hliðunum og setja svo aftur að stað þar til allt er vel blandað saman og mótanlegt.

  5. Mótið nú litlar kúlur, mér finnst best að nota svona litla kúluformandi sleppiskeið, og setjið á bökunarplötu með bökunarpappír á.

  6. Bakið í ofni í 10 mínútur á 180 gráðum. *Þessu skrefi er hægt að sleppa en ég nota þetta skref til að bollurnar haldi forminu og svo ég komist upp með að nota minni olíu við að steikja þær. Það er líka hægt að steikja þær beint á pönnunni.

  7. Takið svo falafelbollurnar og steikið á pönnu á hverri hlið í smá ólífuolíu þar til þær eru orðnar dökkar og jafnvel smá stökkar að utan.

Á okkar heimili er vinsælt að setja falafel inní pítur með hummus, salati og tahini- eða jógúrtsósu eða bera fram sem salatdisk með falafel.

Falafelbollurnar er hægt að útbúa og frysta eftir skref 6. Við elskum að eiga falafelbollur í frysti til að grípa í fyrir einfalda máltíð. Þá hita ég þær annaðhvort í ofni eða leyfi þeim að þiðna í smá stund og steiki svo á pönnu.

Verði ykkur að góðu.

Previous
Previous

3 hráefna suðrænn smoothie

Next
Next

Smörrebröd með marineruðum gulrótum og lífrænni graflaxsósu.