Vegan og sykurlaus barnaafmæli, Róbert 3 ára.
Maður verður mikið var við fallega skreyttar kökur með teiknimyndafígúrum úr sykurmassa þegar það kemur að barnaafmælum. Aldrei grunaði mig að það yrði í raun meiri áskorun í uppeldinu að forðast sykur en að forðast dýraafurðir.
Það er kannski ekki skrítið þar sem haugur af sykruðum vörum er markaðsettur fyrir börn! Markaðsetning er öflugt verkfæri og vörur eru skreyttar með allskyns fígúrum sem fanga augað hjá börnum og villa um fyrir fullorðnum með skilaboðunum “þessi vara er fyrir börn”. Á maður þá ekki að treysta því?
Því eldri sem börnin verða, því mun erfiðara er að forðast sykur enda gerir normið ráð fyrir því að svona stór strákur sé löngu farinn að fá nammi og eigi skilið pez á síðustu fimleikaæfingunni og sleikjó eftir klippingu… og sjaldnast eru foreldrarnir spurðir.
Í mínum afmælisveislu undirbúning hef ég komist að því að það er alls ekki hlaupið að því að finna uppskriftir að sykurlausum kökum. Þegar maður slær innleitarorðið “sugarfree” eða „sykurlaust“ kemur upp glás að uppskriftum þar sem notaður er annaðhvort gervisykur eða einhverskonar sýróp. Ég hef hingað til reynt að halda mig við sætu úr ávöxtum fyrir börnin mín.
Mér datt því í hug að deila með ykkur hér í einni færslu því sem ég hef boðið uppá og veitir ykkur vonandi innblástur að sykurlausum veitingum.
Tek það fram að ég vil alls ekki koma inn neinu sambiskubiti hjá foreldrum heldur vona ég að þetta sé frekar hvatning til þess að prófa sig áfram með sætu úr ávöxtum fyrir minnstu munnana.
Ef ég hef veitt þér innblástur að sykurlausum kræsingum þætti mér ofsalega gaman að sjá það og gerum það endilega sýnilegt á samfélagsmiðlum og breytum þessum normum.
Ég er alltaf örlítið meir daginn sem krakkarnir eiga afmæli og langar mig alltaf að dagurinn byrji extra vel hjá þeim með lúxus morgunmat. Mér finnst skemmtilegt að útbúa morgunmatinn á smá platta sem jafnvel er hægt að færa afmælisbarninu í rúmið. Hér fékk lítill strumpur bananamöffins með döðlukremi, ber og litla skál af hreinu jógúrti með múslí og berjum.
Ég set uppskriftina af þessum banananmuffins fyrir neðan en þær voru líka á boðstólnum í veislunni.
Afmæliskakan í veislunni var döðlukókoskaka hlaðin jarðaberjum og þeyttur vegan rjómi með. Uppskrift af henni finniði hér. Ávextir, ber og popp er svo eitthvað sem allir elska og slær alltaf í gegn. Mjög þægilegt að skammta poppinu í lítil box sem passa í litlar hendur. Það væri líka hægt að gera það með ávextina.
Mér finnst það verða að vera eitthvað matarkynns á móti þessu sæta. Það er líka bara svo þægilegt að fara í/halda veislu og þurfa ekki að spá í kvöldmatnum eftir á. Mér finnst ótrúlega sniðugt að bjóða uppá pastasalat í barnaafmælum þar sem flest börn þekkja og elska pasta og svo er hægt að leika sér með allskonar útgáfur, pestópasta, karrýpasta eða sinneps eða bara einhverjar skemmtilegar kryddblöndur, veganmæjó eða olíu. Hummus, brauðsalöt og pestó eru líka klassík og passa með súrdeigs- eða snittubrauði eða bara með pastasalatinu. Ég klippti líka niður tortilla pönnukökur í þríhyrninga og steikti uppúr olíu sem er alveg rosalega gott með hummusnum.
Ég leyfi myndum að tala sínu máli og vona innilega að þessi færsla hafi veitt einhvern innblástur fyrir komandi barnaafmæli.
Hér kemur uppskrift af dásamlegum minimuffins sem passa vel fyrir litla munna. Uppskriftin er upprunalega vegan sykurlaust bananabrauð af heimasíðunni Simple-veganista.com sem ég hef breytt lítilllega og gert muffins í stað brauðs og svo bætti ég við kremi.
Minimuffins:
Þú þarft:
1 3/4 bolli hveiti
8 mjúkar döðlur
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
Hrífsoddur salt
1/3 bolli hlutlaus olía
1 tsk vanillidropar
3 stórir þroskaðir bananar
1/4 bolli plöntumjólk
1/3 bolli kókos
Döðlu”súkkulaði”krem:
300 gr mjúkar döðlur
150 gr vegan smjör (naturli kubbur eða smjörlíki)
1 tsk vanillidropar
1/8 tsk salt
2 msk kakó
Aðferð:
Kökudeiginu er blandað saman, bananann stappa ég og döðlurnar klippi ég. Öllu skellt í lítil form.
Minimuffins bakast í 15 min á 175C, stærri muffins í 20-25 min. (Baka á blæstri)
Kremið geri ég í matvinnsluvél.
Verði ykkur og ykkar krílum að góðu 💕